21.02.2023

Fimm leiðir til að gera heimilið að griðastað

Heimilið þitt er mikilvægasta rýmið í lífinu þínu og ætti að veita öryggi, ró og frið frá skarkala hversdagslífsins. Hér eru fimm aðferðir sem koma að góðum notum í að gera heimili þitt að sönnum griðastað í tilverunni.

1.Þrífðu sem oftast!

Skítug herbergi með miklu drasli eru ekki vistarverur sem gott er að dveljast í til lengri tíma. Mikið af ryki veldur þungu lofti og matarleifar laða að sér skordýr og geta þannig verið beinlínis heilsuspillandi. En það er lítið mál að halda heimilinu hreinu ef fólk temur sér nokkra góða vana. Það er best að venja sig á að vaska upp/setja í uppþvottavél strax að máltíð lokinni, þá er það líka miklu auðveldara en nokkrum klukkutímum síðar þegar sósur og annað hafa harðnað á diskunum. Gott er að hafa skipulag sem hakað er við fyrir þrif sem sinna þarf sjaldnar, svo sem þurrka af, skúra, og þrífa klósettið. Að taka frá tíu mínútur í tiltekt á hverjum einasta degi getur gert gæfumuninn í að gera heimilið að griðastað sem stendur undir nafni.

2.Hugaðu vel að lýsingu

Lýsing hefur gríðarlega mikil áhrif á það hvernig við skynjum rými og hvernig okkur líður í þeim. Allt of björt lýsing frá rússneskri ljósaperu getur látið þér líða eins og þú sért að versla í matinn, að bíða eftir tannlækni, eða eins og þú sért í yfirheyrslu. Náttúruleg og dempuð lýsing gerir hins vegar herbergið notalegt og hlýlegt. Staðsetning ljósa og lampa skiptir miklu máli, og gott er að hafa loftljós þar sem hægt er að stilla birtustigið og lit ljóssins. Svo geta fallegir lampar á réttum stöðum, og jafnvel stöku kertastjakar, gert heilmikið til að breyta heimilinu í stað slökunar og heilunar.

3.Hafðu þægindin í fyrirrúmi

Ekki bara hugsa um hvernig herbergið myndi líta út í Húsum og Híbýlum, heldur hvernig er líklegast að þú eyðir tímanum þar inni, og hvað myndi gera þann tíma sem ljúfastan. Mjúkir koddar í uppáhalds stólnum, teppi á sófanum, fallegt handklæði á baðherberginu og inniskór úr góðu efni eru allt lítil atriði sem skipta þó sköpum í heildarmyndinni um heimilið sem athvarf og griðastað.

4.Losaðu þig við kraðakið

Sama hversu mikið pláss þú hefur virðist það alltaf á endanum fyllast af drasli. Að búa í heimili fullu af drasli leiðir oft til innilokunarkenndar, svona fyrir utan að maður finnur aldrei það sem maður leitar að. Til að „afdrasla“ heimilið er gott að skipta verkefninu í nokkur svæði (herbergi), og forgangsraða þeim. Gott er að eiga góðar hirslur fyrir það sem þú vilt ekki losa þig við, en svo flokka dót í gefa/selja/endurvinna, og vera svolítið grimmur á „gefa“-pokanum. Hér má finna ítarlegri ráð (hlekkur á 8 ráð til að afdrasla heimilið) til að losnað við kraðakið sem svo oft vill myndast á heimilum fólks.

5.Bættu við smáatriðum sem gætu bara hafa komið frá þér

Engir peningar eða innanhússarkítektar geta búið til algjörlega fullkomið heimili, því þitt persónulega handbragð skiptir öllu máli. Til dæmis stofuborðið sem þú málaðir sjálf/ur og hefur fylgt þér í gegnum í átta íbúðir frá því þú byrjaðir að búa. Málverkið sem keyptir á flóamarkaði og öllum finnst hallærislegt nema þér. Þessi skrítni laxableiki litur sem þá notar á einn vegginn í stofunni. Heimilið þarf að endurspegla ÞIG, aðeins þannig getur það orðið alvöru griðastaður.